Description
Vínhús Sadi Malot var stofnað af Socrate Malot, en hann nefndi fyrirtækið eftir Sadi bróður sínum, sem fæddist daginn sem Sadi Carnot forseti Frakklands var myrtur. Sadi lést á vígvellinum í fyrri heimsstyrjöldinni. Í dag er það fimmta kynslóð Malot-fjölskyldunnar sem annast vínekrurnar sem eru við þorpin Villers-Marmery og Verzy, rétt sunnan við borgina Reims.
Vínekrurnar við Villers-Marmery flokkast sem Premier Cru, og þar ræktar Malot-fjölskyldan Chardonnay-þrúgur. Vínekrurnar við Verzy eru hins vegar flokkaðar sem Grand Cru – hæsti gæðaflokkurinn í Champagne – og þar eru ræktaðar Pinot Noir-þrúgur.
Vínið er gerjað í stórum eikarámum. Hluti vínsins er settur til hliðar og blandað saman við „varavínið“ , en varavín Sadi Malot er samfelld blanda árganga frá árinu 2010. Öll kampavínshús eiga varavín (reserve wine) sem er að hluta ætlað til að viðhalda ákveðnum bragðeiginleikum hvers framleiðanda, en einnig er það hugsað sem varabirgðir ef uppskerubrestur verður (sem gerist stundum þegar veðurskilyrði eru óhagstæð).
Þetta vín er að mestu gert úr þrúgum frá árinu 2019, en um 15-20% eru fengin úr varavíninu. Vínið er svo látið þroskast í 4-5 ár í kjallara Malot-fjölskyldunnar.
Brut Authentique er eingöngu gert úr Chardonnay og kallast því Blanc de Blancs – “hvítt úr hvítu”. Vínið inniheldur 7 g/L af sykri og flokkast því sem þurrt (Brut).
Vínið er ljómandi gott sem fordrykkur en það fer líka ákaflega vel með skelfiskréttum á borð við grillaða risahörpuskel eða sjávarréttapasta.